
Kom Útópía!
Erindi frá fyrsta bransadegi íslenskra sviðslista
Ég tók þátt í fyrsta bransadegi íslenskra sviðslista sem sviðslistamiðstöð stóð fyrir í Borgarleikhúsinu 30.maí. Þar var margt fagfólk úr sviðslistum samankomið til þess að deila hugmyndum um fagið í fortíð, samtíma og framtíð. Hugvekjur, pallborð og hringborð. Mjög vel heppnað. Mér var boðið að halda hugvekju um stöðu sviðslista og láta mig dreyma um framtíðina. Svona hljómaði það:
Kom útópía!
Ég þakka fyrir það traust og þann heiður að fá að flytja fyrsta innleggið á þessum fyrsta Bransadegi íslenskra sviðslista. Það eru mikil forréttindi að hafa rödd. Það gefur mér tilefni til að beina sjónum að þeim forréttindum sem ég bý við og hafa áhrif á hvað ég sé og hvað mér er hulið, hvað mér þykir mikilvægt og hvernig ég tjái mig. Þessi sömu forréttindi geta líka blindað mig og takmarkað skilning minn á fjölbreytileika mannlegrar tilvistar.
Hafið þetta í huga þegar ég deili með ykkur hugmyndum mínum. Þær spretta af reynslu minni – úr þessum líkama, og þeim heimi sem ég þekki.
Eins og þið sjáið er ég hvít miðaldra kona, ég kem frá félagslega og fjárhagslega sterku baklandi, ég hef getað menntað mig, hef fulla getu líkamlega og andlega. Ég hef verið í aðstöðu þar sem ég hef haft rödd til að tjá minn veruleika, haft árhif á mitt starfsumhverfi og mikið af sviðslistaverkum spegla minn veruleika. Þótt ég falli auðveldlega að staðli hins venjulega, hef ég gengið ótroðnar slóðir á jaðri íslenskra sviðslista.
Í mínu eigin heimi er það þó miðjan sem ég byggi í kringum.
Á sviðslistaþingi fyrir tæplega 25 árum var ég beðin um að halda erindi um framtíð íslenskra sviðslista, þá sem ung sviðslistakona nýflutt heim eftir nám og störf erlendis. Erindið bar titilinn frá sögusafni í sýndarveruleika. Ég var heilluð af möguleikum netsins og nýrrar tækni – og sýningarnar sem ég leikstýrði urðu vettvangur tilrauna með skjái, miðlun og stafræn rými. Síðar þróaðist þessi áhugi yfir í stofnun Netleikhússins Herbergi 408 – rannsóknarvettvang sem skoðaði bæði netið sem sviðslistarými og birtingarmyndir mannlegs eðlis í stafrænum heimi. Með viðkomu í Áhugaleikhúsi atvinnumanna – peningalausu og umhverfisvænu leikhúsi – þróaðist áhugi minn smám saman útúr tækninni, og út fyrir hið hefðbundna leikhúsrými. Þar hófst ferli þar sem ég fór að ramma inn sviðssetningar sem fyrirfinnast í umhverfi okkar og kanna tilvistarlegar spurningar í gegnum þátttökuaðferðir og nánari tengsl við umhverfið. Þessi hreyfing út úr leikhúsinu og inn í landslagið varð til þess að listsköpun mín fór að spretta upp úr samhengi, nálægð og tengslum – ekki sem lokaðar og tilbúnar sýningar heldur sem hluti af lífríki þar sem nærvera, samvera og samspil verða grundvöllur sköpunar.
Í dag vinnn ég með performatíf stefnumót þar sem ég beiti gljúpri dramatúrgíu, sem skapar rými innan verksins fyrir gesti, líkama þeirra, reynslu og sögur. Í þessu samhengi velti ég fyrir mér hvernig sviðslistirnar geta stuðlað að tilvistarlegri sjálfbærni með því að efla tengslin við umhverfi sitt og skapa tilfinningu af því að tilheyra og upplifa sig sem hluta af heiminum. Því í raun er allt í heiminum gert úr sama efninu, líka ruslið sem við hendum.
Uppruni okkar er stjörnuryk.
ÚTÓPÍAN
Kæru kollegar, mig langar að bjóða ykkur með mér í ferðalag inn í draumsýn mína. Við ætlum að stíga inn í heim þar sem sviðslistin blómstrar, ekki sem bransi, ekki sem atvinnugrein, heldur sem lífríki: margbreytilegt og lifandi vistkerfi þar sem skynjun, tengsl og samkennd vaxa eins og net sveppaþráða undir yfirborðinu. Þar sem ekki er spurt: Hvað fæ ég út úr þessu? heldur: Hvernig tengist þetta?
Í þessari framtíð er ekki spurt um hagræn áhrif, heldur um tilvistarlega sjálfbærni þeirra sem mynda heildina. Í þessu lífríki höfum við öll ólík hlutverk, sem eru samofin. Eins og í náttúrulegu vistkerfi lifir ekkert án samveru og gagnkvæmra tengsla. Í þessu lífríki eru tengslin ekki aukaafurð – þau eru forsendan. Meginstraumur fyrirfinnst ekki. Það er engin eiginleg miðja, því hver er í sinni miðju og enginn stofnun eða listamaður þarf að gera allt en allir gera eitthvað.
Í útópíunni erum við hætt að líta á sviðslistina sem röð sýninga og förum að sjá hana sem stað umhyggju og samkenndar. Rými þar sem við getum dvalið saman í því sem er flókið, ósvarað, lifandi og gefandi; til að upplifa okkur sem part af heild. Þar sem við erum ekki bara örugg heldur líka hugrökk til að horfast í augu við okkur sjálf. Og við munum töfrana. Þeim gleymum við ekki… heldur ekki leiknum og léttleikanum.
Í útópíunni sköpum við list sem þarf ekki að svara fyrir sig, heldur stendur á eigin forsendum.
Hún þarf hvorki að skýra tilgang sinn né sanna áhrif.
Hún lætur okkur gleyma.
Hún hjálpar okkur að muna.
Hún fær okkur til að gráta – eða hlæja.
Leyfir okkur að staldra við, taka þátt, dást að, eða einfaldlega að vera.
Í þessari framtíð er listin ekki mælanlegt framlag heldur lífræn þátttaka.
Ekki afurð, heldur ferli.
Ekki frammistaða, heldur nærvera.
Ekki markmið – heldur afstaða
Ekki söluvara – heldur samvera.
Ekki staður – heldur leið.
Leið með mörgum kvíslum.
Þar eru gæðastaðlar breytilegir.
Það fjallar ekki lengur um að geta teygt ristar eða látið röddina berast á aftasta bekk.
Því í þessu lífríki skiptir það máli hvaða sögur eru sagðar, hver segir söguna og hver tekur þátt. Sum verk miðla í gegnum orðin, önnur í gegnum snertingu, hljóð, líkamsminni, eða samveru í rými þar sem ekkert er útskýrt, en allt skynjað.
Hér er dansað með augunum.
Hér tala leikarar með höndunum.
Hér heyrum við rödd hins meira-en-mennska.
Hér eru engin frávik – því það eru einmitt ólík form tjáningar sem viðhalda heilbrigði lífríkisins. Í útópíunni er ekki aðeins pláss fyrir fjölbreytileika heldur er fjölbreytileikinn sjálfur jarðvegurinn sem listin vex úr.
Engin þörf er á inngildingu, því allir eru gildir frá upphafi.
Í þessari útópíu eru listir hluti af daglegu lífi eins og andardráttur þar sem þær stuðla að tilvistalegri sjálfbærni og svara grunnþörfum mannsins fyrir tengsl, fegurð og andlegra næringu.
Í útópíunnni er gjaldmiðillinn tími og gengið er hátt. Allir fara vel með tímann sinn.
Sviðslistafólk hefur aðstöðu í listrænum gróðrastöðum þar sem gestir eru velkomnir án endurgjalds. Listamannalaun gefa öllum tækifæri á að velja verkefni af áhuga. Í útópíunni hafa allir þátttakendur atbeini og áhrif á hvað er gert og hvernig. Hvert verkefni hefur sinn eigin takt. Skapandi ferli er eins hratt eða hægt og þátttakendurnir ráða við og efniviðurinn gefur tilefni til. Það er enginn staðlaður tímarammi. Ferlið snýst ekki um að framleiða, heldur að hlusta, hlúa að, og þróa í sameiningu. Leikhópar eru samfélög og stefnumótið við gestinn er hjartað í tilveru þeirra. Lýðræði, gagnkvæma virðing, jafnrétti og mannréttindi móta vinnumenningu sviðslistanna. Sviðslistir í þessari útópíu byggja á þeirri hugmynd að sköpun sé grunnstoð mannlegrar tilveru og réttur allra.
Í útópíunni er kulnun óþekkt, því sviðslistafólkið hefur vald yfir eigin aðstæðum.
Í þessari útópíu standa söngleikurinn á stóra sviðinu og hljóðgangan í kirkjugarðinum hlið við hlið – jafnrétthá. Ekki vegna þess að þau séu eins, heldur vegna þess að þau þurfa hvort á öðru að halda til að lifa. Ein tegund nær ekki að halda uppi lífríkinu – það þarf margar nálganir, mörg rými og mörg form sem þrífast í ólíku umhverfi.
Í útópíunni er minna framboð af sviðslistaviðburðum því sköpunarferli taka lengri tíma. Almennt hefur fólk, sviðslistafólk sem aðrir, meiri tíma til eigin umráða. Enginn þarf að óttast það af missa af neinu.
Sviðslistin er listform augnabliksins og í þessum heimi er nærvera göfugasta gildið.
Besti staðurinn að vera á er alltaf hér og nú, og rétta fólkið er fólkið sem er viðstatt.
Rétt eins og nú á þessum fyrsta bransadegi íslenskra sviðslista.
SAMTÍMINN
Eftir þetta flakk á milli vídda lendum við aftur í raunveruleika samtímans.
Eftir dvöl í lífríki þar sem listin sprettur úr hjartslætti tengsla og fjölbreytileika, stöndum við nú í umferðarmiðstöð samtímans þar sem lögmál viðskipta eru við lýði.
Við erum komin í búðina.
Hér er allt til sölu.
Markaðurinn er óþreytandi í því að bjóða fram vörur sem lausn á skorti sem hann sjálfur hefur skapað. Hann heldur okkur föstum við yfirborðið þar sem lífið má hvorki dýpka né hægjast, aðeins seljast. Þetta er heimur sviðssetningar. Hversdagurinn er sviðssettur og allt á sér slagorð. Markaðurinn er í óða önn við að gera fólk að fíklum og hefur tekist ansi vel.
Í samtímanum eru listir oftar metnar út frá hagrænum áhrifum, fjölda sýninga, miðasölu og áliti sjálfskipaðra gagnrýnenda á samfélagsmiðlum frekar en eiginlegu innihaldi og áhrifum. Stofnanir, á stundum bugaðar af tilvistarlegri óvissu, er gerð krafa um að þjóna öllum. Leikhúsin verða að verslunum. Verkin að vörum. Listamenn að vörumerkjum.
Við lifum á tíma þar sem afþreying hefur verið sett í stað samtals, skilvirkni í stað samveru, og vöxtur í stað dýptar.
Fólk keyrir sig út og kallar það ástríðu. Þar erum við íslendingar algjörir snillingar.
Kulnun er ekki lengur frávik, heldur samfélagsleg staðreynd.
Það er enginn friður.
Við eigum að fylgjast með öllu, bregðast við öllu, vita allt.
Áreitið er stöðugt.
Upplýsingarnar eru orðnar svo margar að þær þekja okkur eins og rykský sem smýgur inn í öndunarveginn.
Í stað þess að leikhúsið verði griðarstaður frá upplýsingaóreiðunni verður stöðug framleiðsla nýrra sviðslistaviðburða yfirþyrmandi. Sölukrafan er slík að markaðssetningin verður vægðarlaus. Gæðastjórnun hefur kennt stofnunum hvernig best megi nýta mannauðinn. Bestun á öllum sviðum er krafa fyrirtækja með opinbert fjármagn … en líka nauðsyn því fjármagnið er aldrei nóg, og fyrirtækið í svo örum vexti.
Sjálfstæðir hópar og einstakir listamenn gefa ekkert eftir, þurfa að sanna sig gagnvart stærri rekstraraðilum og allir keppa um athygli áhorfenda, neytendurna með kortið í símanum eða úrinu.
Undir þessari pressu reynir mannauður sviðslista að lifa, skapa og miðla.
Sem mannnkyn, lifum við í heimi skautunar, hamfarahlýnunar, ófriðar, misskiptingar auðs og vaxandi ógnar við mannréttindi. Ofaná þessar áskoranir er gervigreindin sem kann allt og er svo miklu fljótari en við að leysa verkefnin.
Það er erfitt að vita hvernig maður á að bregðast við þessum alvarlegu áskorunum. Eða að læra að lifa með þeim á vitrænan hátt.
Þar geta sviðslistir átt erindi – ekki sem áróðurstæki eða enn einn upplýsingamiðillinn, heldur sem rými þar sem við getum fundið von og tengst þeim gildum sem eru sjálf uppspretta tilvistarlegrar sjálfbærni. Þar sem við getum komið saman í holdinu og fundið til og verið flókin.
Því það er hvorki hraðinn né skilvirknin sem mun leysa vandamál samtímans.
Þetta bendir heimspekingurinn Timothy Morton á þegar hann skrifaði um hlutverk listar í samtali við loftslagsvána í bók sinni All Art is Ecological. Þar hvetur hann okkur til að velja ást fram yfir skilvirkni. „Love, not efficiency,“ skrifar hann. Hann segir að listin gegni mikilvægu hlutverki í loftslagskreppunni með því að umbreyta því hvernig við myndum tengsl , hvernig við lifum og hvernig okkur líður í heimi sem er í kreppu. Það er í lagi að vera allskonar og enginn er fullkominn. Kærleikurinn er stærsta aflið og það eina sem getur bjargað framtíð mannkyns á jörðinni. Sömu niðurstöðu fær Andri Snær Magnason í bókinni um tímann og vatnið en þar segir hann dæmisögu af því hvernig kærleikur á milli kynslóða getur orðið bindiefnið í lausn mannkyns á loftlagsvánni. Þar er ég þeim báðum sammála.
Við erum tengslaverur sem nærumst á nánd og kærleika. Ástin er það eina sem getur komið okkur útúr þeim ógöngum sem við erum í sem mannkyn.
FRAMTÍÐIN
Framtíðin er óviss. Það hefur hún alltaf verið.
Lífið er í stöðugri umbreytingu og við erum ferðalangar.
Við getum kallað ferðina okkar pílagrímsgöngu eða könnunarleiðangur.
Kannski er hún hvort tveggja í senn: ferð með tilgangi, drifin áfram af forvitni.
Við förum áfram, ekki vegna þess að við vitum hvert við stefnum, heldur vegna þess að við vitum að við getum ekki staðið kyrr. Við getum ekki verið aðgerðarlaus.
Í Staying with the Trouble bendir Donna Haraway á að við verðum að hætta að bíða eftir lausnunum og læra í staðinn að dvelja með vandanum. Sumu getum við ekki breytt. Hún bendir okkur á að frekar en að leggja á flótta, þá eigum við að bregðast við áskorununum með því að halda okkur á þessum flókna stað, dvelja með vandræðunum í gegnum samveru og tengsl. Hún hvetur okkur til að „búa til ættingja“ (make kin), ekki bara meðal fólks, heldur einnig við umhverfið, dýrin, tæknina, framtíðina sjálfa. Hún talar um samsömun (Becoming with). Að í stað þess að stýra heiminum að samsama sig heiminum.
Sviðslistir eru listform augnabliksins. Staður samsömunar, þar sem við getum dvalið með heiminum á meðvitaðan hátt ekki bara með mannfólkinu, heldur líka því meira-en-mennska. Sviðslistirnar gerast í rauntíma, í rými sem við deilum með öðrum, í gegnum nærveru líkama og anda.
Sviðslistirnar tala ekki bara til hugans, heldur líka til húðarinnar.
Þú heyrir andardrátt.
Þú finnur lykt.
Þú skynjar spennu í rýminu, titring í loftinu.
Augnaráð.
Þögn.
Óvænt hlátur.
Hreyfing í horninu.
Sviðslistin er það sem gerist á milli hins sýnilega og ósýnilega, hins vitræna og líkamlega.
Engin vél finnur hvenær þögnin fer að tala.
Nú þegar gervigreind getur talað við okkur, skrifað fyrir okkur, jafnvel skapað fyrir okkur, er mikilvægt að halda í það sem hún nær ekki utan um: líkama okkar, skynjun, berskjöldun og nánd. Engin gervigreind skynjar samhljóm tveggja líkama í sama rými eða titring þess sem ekki var sagt. Gervigreind mun eflaust hafa afgerandi áhrif á hvernig við vinnum, tjáum okkur og sköpum. Hún getur greint mynstur, samið texta, hjálpað okkur að forvitnast, hugsa hraðar, sjá tengingar, jafnvel komið fram á sviði.
En hún gengur ekki í leikhúsið. Hún situr ekki í myrkrinu með hjartað í höndunum.
Hún finnur ekki lyktina af þunga rýmisins eða skynjar loftið breytast þegar einhver ákveður að segja satt.
Ekki enn.
Það er mikilvægt að við gleymum ekki því sem gerir sviðslistirnar einstakar, líkamleikanum. Sviðslistin er rými þar sem við verðum vitni að hvort öðru, líkamlegum, ófullkomnum og lifandi.
Framtíð sviðslistanna felst ekki í því að keppa við tæknina eða leysa vanda samtímans.
Á okkar óvissu tímum er sviðslistin athöfn vonar.
En eins og Donna Haraway bendir á, þá þurfum við ekki að leysa allt, heldur að læra að samsama okkur umhverfi okkar. Vonin kviknar ekki úr svörum heldur úr augnabliki þar sem við þorum að vera berskjölduð saman.
Við getum brugðist við áskorunum samtímans með því að skapa hægara, dýpra og meðvitaðara rými og við getum minnt okkur á að við erum hér ekki til að afkasta, heldur til að tengjast og beita kærleiksvöðvanum.
Ef sviðslistirnar eru lífríki, þá byggja þær ekki á einni nálgun eða miðju heldur á samspili ólíkra þátta, í jarðvegi þar sem tengsl, traust og nærvera skapa forsendur fyrir lifandi sköpun.
Við stöndum nú á mörkum þess sem var, er og verður.
Og vonin byrjar alltaf hér: í líkamanum, í hjartanu og nándinni.
Takk fyrir mig!