Matter: Nýtt tölublað

Tímarit um sviðslistarannsóknir

Fjórða tölublað Matter er nú komið út. Þar er að finna safn texta, mynda og ljóða sem gefa innsýn inn í  All My Relations Ecocamp #3, sem fór fram á Gylleboverket á Skáni í september 2024. Ég er stofnandi og einn skipuleggjenda All My Relations, og jafnframt ritstjóri þessa tölublaðs.

Í þrjá daga komu saman um tuttugu listamenn og fræðimenn til að kanna tengsl í víðu samhengi en sérstaklega hvernig manneskjur og hin meira-en-mennska náttúra fléttast saman í sameiginlegu vistkerfi. Heftið fjallar um vistfræðilega hugsun sem líkamlega og skynræna reynslu, þar sem nálgunin er bæði jarðbundin og íhugul.

Unnið var út frá landslagi svæðisins og tengslum þess við daglegt líf, og blandað saman hagnýtum aðgerðum og ljóðrænum nálgunum til að varpa ljósi á hvernig tímabundið samfélag getur orðið frjó jörð fyrir sjálfbæra framtíð.

Heftið sýnir hvernig listsköpun og fræðileg íhugun geta opnað nýjar leiðir til að tengjast náttúru, stað og hvert öðru — í gegnum skynjun, nærveru og gagnkvæma umhyggju.