Leiðin

Performatífar pílagrímsgöngur fyrir tilvistarlega sjálfbærni.

Það er mér ánægja að tilkynna að nýja verkefnið mitt, Leiðin, er loksins að fara af stað. Þann 12. og 14. júní mun ég, ásamt Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur, bjóða gestum í Leiðina – performatífa pílagrímsgöngu í gegnum Vatnsmýrina í Reykjavík. Þessi upplifunar ganga hefst og endar við Norræna húsið og er opin fólki á öllum aldri og með fjölbreytta getu. Í anda pílagrímsferða ganga þátttakendur til móts við sjálf sig en í gegnum sviðssettar hugleiðingar, athuganir og önnur létt verkefni er sjónum beint að tengslum manns við umhverfi sitt.

Leiðin í Reykjavík markar upphaf að stærri röð undir merkjum Fagurferða, nýs vettvangs fyrir viðburði og upplifanir sem tengja saman list, náttúru og heimspeki. Ég mun síðar kynna nýjar göngur með ólíkum samstarfsaðilum í Kjós, Ásbyrgi og Hallormsstað. Lokaverkið verður svo hljóðverk, pílagrímsganga um hugans rými, ætluð þeim sem ekki eiga heimangegnt.

Pílagrímsgangan Reykjavík er unnin í samstarfi við Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur sviðshöfund, sem notar hjólastól, og er sérstaklega hönnuð með aðgengi í huga. Leiðin er 2,5 km og tekur um það bil 90 til 120 mínútur.

Hópferðir:

Fimmtudagur 12. júní, kl. 14:00–16:00
Laugardagur 14. júní, kl. 14:00–16:00

Boðið verður upp á hressingu í göngunni. Leiðsögn er á íslensku.
Fyrir þá sem vilja fara í gönguna á eigin vegum er hægt er að sækja leiðarlýsingar á ensku og dönsku á fallegt.com/leidin.

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á fallegt@fallegt.com með upplýsingum um dagsetningu og fjölda þátttakenda. Hægt er að panta hópferðir á ensku eða dönsku samkvæmt samkomulagi.

Nánari upplýsingar: fallegt.com.